Færsluflokkur: Bloggar
19.9.2007 | 14:13
Beðið eftir Wipha
Þá er ég búin að bíða í rúmlega sólarhring eftir því að fellibylurinn Wipha vippi sér yfir Shanghæ. Eina sem ég hef orðið vör við er minniháttar rok og vel yfir meðallagi rigning. Á Íslandi væri þetta kallað sæmilega gott veður en heldur blautt kannski. Allir skólar voru lokaðir í dag og margar verslanir og veitingastaðir. Það er allt búið að vera hálflamað. Ég vissi þó að það versta sem gæti gerst fyrir mig á mínu vestræna heimili væri rafmagnsleysi. Er því búin að kaupa mér ansi fallegt kínverskt kubbakerti og kveikjara.
Það góða við þetta er þó að ég hef nýtt tímann vel í dag til að læra og ekki veitir af því skólinn er ansi krefjandi. Nú hellast yfir hópaverkefnin og heimalærdómur. Mikið er skemmtilegt að vera í svona alþjóðlegum bekk. Það er fólk frá hátt í 40 löndum og við erum að ræða um málefni eins og alþjóðavæðingu. Þið getið ímyndað ykkur hvað við fáum mörg mismunandi sjónarmið. Er viss um að hópavinnan á eftir að reyna á þolinmæðina en ef það er eitthvað sem ég get bætt verulega þá er það þolinmæði. Er viss um að ég mun vera orðin sleip í henni þegar ég kem tilbaka ;)
Jæja er ekki búin að útiloka að ég eigi eftir að finna fyrir Wipha, það er smá rok núna. Er allavega með kertið, kveikjarann og vasaljósið tilbúið.
Hér er linkur á heimasíðu skólans ef þið viljið kíkja http://www.ceibs.edu/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.9.2007 | 15:11
Svefnleysi í Shanghæ
Jæja þá byrja ég loksins að blogga! Er búin að vera í hálfgerðu ástandi síðan að ég koma, sambland af svefnleysi, menningarsjokki og bakteríusýkingu af verri gerðinni. Það kom tímabil síðastliðnar 2 vikur sem ég var búin að ákveða að taka járnfrúnna til fyrirmyndar og venja mig bara á að sofa 4 tíma á sólarhring. Þar sem ég náði ekki að koma því upp í vana þá hef ég lagt þessa stefnu í dvala í nokkra áratugi. Nú er ég loksins komin til meðvitundar aftur og farin að njóta þess að vera hérna í þessarri frábæru borg.
Búin að finna mér íbúð í Pudong hverfinu, þar sem skólinn er, tekur mig 10 mínútur að fara í skólann. Þetta er nú bara ansi fín íbúð og hverfið bara ágætt þrátt fyrir að vera heldur vestrænt. Hérna búa mikið af útlendingum eða svokölluðum "expats". Þetta er svona millistig á milli vestrænnar og kínverskrar menningar.
Shanghæ er mögnuð borg! Ég veit ekki hvernig maður getur eiginlega lýst henni þannig að tilfinningin að vera hér skili sér til ykkar. Þetta er líklega Manhattan margfaldað með 20 með austantjaldsívafi. Það er gríðarleg uppbygging í gangi hér, hef aldrei séð svona marga byggingakrana samankomna á einum stað og aldrei jafn mörg háhýsi á einum stað. Kínverjar eru að upplagi yndislegt fólk, svakalega kurteisir og ljúfir í viðmóti. Hef þó verið að glíma við mikla tungumálaörðugleika þar sem að nánast engin talar ensku. Maður þarf að láta einhvern skrifa áfangastaðin á kínversku áður en stigið er upp í leigubíl því það er sjaldgæft að finna leigubílstjóra sem talar ensku. Það er því nauðsynlegt að hefja kínverskunám hið snarasta til þess að geta gert sig skiljanlegan. Er byrjuð að læra kínversku og segi bara úfffffff... en kann allavega að segja: til hægri, til vinstri og beint áfram :)
Níhá frá Shanghæ
Ps. búið að spá fellibyl hérna í Shanghæ! sleppti kínverskutíma áðan út af því. Hann átti að ná hámarki fyrir klukkutíma en ekkert bólar á honum. Það var reyndar smá rigning og rok áðan.. veit ekki hvort að það flokkast sem fellibylur :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)