Kínamúrinn!

Pekingferðin var alveg frábær! Við náðum að gera ótrúlega mikið á þessum stutta tíma sem við vorum þarna. Skoðuðum Torg hins himneska friðar, Forboðnu borgina og fórum á Kínamúrinn. Mikið er þetta falleg borg og heldur kínverskari en borgin mín. Týndumst alveg í svokölluðum Hutong hverfunum þar sem eru eldgömul hús og mjóar götur í gegnum allt. Nú er verið að gera allt upp svo það verður örugglega mjög skrýtið að koma þarna aftur eftir ár. Pekingbúar eru að shæna allt til svo að þeir verði nú flottir á Ólympíuleikunum næsta sumar. Það er sama hvaða götu við komum á allstaðar var verið að gera upp. En það er alveg magnað að koma í þessi gömlu hverfi þar sem er eins og tíminn hafi staðið í stað fyrir utan einstaka túristabúðir og gsm síma. Það er þvílíkt mannlíf að manni finnst eins og það gerist allt úti á götu. Það var verið að klippa einn úti á torgi þegar við löbbuðum þarna í gegn, mjög heimilislegt.

Múrinn var ótrúlegur, það er alveg sama hversu margar myndir maður sér það jafnast ekkert á við að vera þarna. Þvílíkt og annað eins mannvirki! Það sem kom mér einna mest á óvart var hversu brattur hann er og erfiður yfirferðar. Það hefur nú ekki verið auvelt fyrir hermennina sem stóðu á vaktinni að klifra þarna upp og niður á sínum tíma. Svo er líka annað merkilegt sem á við um flesta túristastaðina og það er hversu mikill meirihluti túristanna eru kínverjar. það er svona 10% sem eru ekki kínverjar, þetta þýðir líka að á flestum túristastöðunum er varla töluð enska og oft eru öll skilti á kínversku. Þarna voru heilu fjölskyldurnar samankomnar og ég dáðist að gamla fólkinu sem kleif þarna upp og niður eins og ekkert væri. Sem sannaði fyrir mér enn einu sinni hversu góðu formi kínverjarnir eru í yfirhöfuð. Það var náttúrulega engin leið að sjá fyrir endann á múrnum og útsýnið þarna uppi einstakt. Það er frábært hvað múrinn er einn ósnortin af túrisma það er sennilega þessum fjölda kínverja sem koma þangað að þakka!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Prútt og klæðskeramarkaðurinn

Náði að lenda ótrúlega góðum samningi við Ivy ofurkonu með meiru. Við erum alveg að verða búin með viðskiptaáætlunina og ég náði að sannfæra hana um að betra væri að kynna hana á þarnæsta laugardag.. fékk semsagt leyfi frá henni til að senda fyrirspurn á kennarann og hann samþykkti! Þetta þýðir að ég get farið laus við allar áhyggjur til Peking!!!!

Annars búin að vera á markaði í allan dag með mömmu og pabba. Fyrst á klæðskeramarkaðinn sem er á fjórum hæðum og með svona 100 klæðskerum og 50 þúsund mismunandi tegundum af efnum. Erum að láta sauma á okkur allskonar dót og hlakka til að sækja þetta í næstu viku. Það er sérstök upplifun að koma þarna í þessa stemmningu og mjög skemmtilegt að fá að heyra verðin :) Síðan röltum við niður í gamla bæ og ég held að ég hafi prúttað fyrir lífstíð enda keypti ég jólagjafir fyrir næstum alla vini og vandamenn. Þá vitið þið það! Mamma og pabbi komu með blöð að heiman sem voru full af jólaeinhverju. Þetta er svo fjarri mér hér, ekkert minnir á jólin. Það heltók mig eitthvað jólastress og mér fannst ég verða að klára þetta! .. held að mömmu og pabba hafi brugðið við samningshörku dótturinnar. Þetta er nú eitt af því sem maður lærir hér, að prútta og mér finnst það ekkert smá skemmtilegt!

Búið að bóka hótel í Peking og nú lofa ég að birta loksins myndir á blogginu, alveg komin tími til. Segjum að fyrsta myndin verði af mér á Kínamúrnum og hún birtist fyrir helgi :) Fékk mér Pekingönd í kvöldmat til þess að hita mig upp fyrir ferðina...


Á leið til Peking

Ivy ofurkona er að þræla mér út hérna.. þvílíkur heragi! Hún færði frestin á okkar hluta af viðskiptaáætluninni fram um einn dag og sagði kennaranum að við værum til í að kynna hana viku fyrr. Ég er búin að vera á vertíð að reyna að klára þetta og verð mjög ánægð þegar þetta er í höfn. Er að fara á fund með þeim á eftir.. fyndið samt að ekkert okkar segi neitt, við gerum bara það sem hún segir. Ég held ég hafi aldrei látið svona vel að stjórn fyrr, hún hefur eitthvað hún Ivy. Held reyndar að þetta verði þrusuverkefni hjá okkur.

Mamma og pabbi komu á laugardag, alveg meiriháttar gaman að fá þau. Hef nú samt lítið getað verið með þeim sökum þessa Ivy máls. En ég er líka búin að gera mér grein fyrir því að ég er búin að vera allt of ábyrg og samviskusöm.. verð aðeins að slaka á og sjá eitthvað hérna líka. Er búin að bóka flug fyrir mig og foreldrana til Peking á miðvikudag. Verðum fram á laugardagsmorgun þannig að ég næ að koma heim rétt áður en kynningin á viðskiptaáætluninni fer fram. Hlakka rosalega til!


Hillary

Fann þetta á Chinadaily áðan. Hillary sem vonandi verður forseti USA ef bandaríkjamenn kjósa nú einu RÉTT að tala um mikilvægi Kína í framtíðinni. Ef þið viljið lesa alla greinina farið þá á:

http://www.chinadaily.com.cn/china/2007-10/31/content_6220100.htm

India special, but China 'most important' for Hillary
(Agencies/chinadaily.com.cn)
Updated: 2007-10-31 15:48

Leading US Democratic presidential candidate Hillary Clinton said while India as an emerging power has a special significance for America, the ties with China will be its most important bilateral relationship.

Ps. Kann ekki að láta linka á vefsíður virka þannig að hægt sé að smella á þá blogginu mínu, getur einhver sagt mér hvernig á að gera það?? Og svo megið þið líka setja inn athugasemdir ágætu bloggvinir og vandamenn ;) Fæ svo mikla höfnunartilfinningu þegar þið heimsækið bara en skiljið ekkert eftir fyrir mig..


Prófin búin og tímabilið hér hálfnað!

Búin í prófunum! Þetta var hrikalega erfitt fag sem ég var að klára áðan "Chinese economy" en á sama tíma gríðarlega áhugavert. Er orðin þokkalega vel að mér í sögu þeirrar efnahagsbyltingar sem átt hefur sér stað hér, orsökum og afleiðingum hennar. Við þurfum líka að halda kynningu eftir prófið þ.e.a.s hóparnir á einhverju efni tengdu því hvernig Kína er og hefur verið misskilið. Það var skemmtilegt að hlusta á þessa fyrirlestra sem vorum um allt frá gæðamálum til tjáningafrelsis. Okkar kynning var allt í lagi.. fannst við hefðum nú getað gert betur. Fjölluðum um grein sem einhver hagfræðingur skrifaði árið 2000 og sér sennilega enn eftir að hafa birt :) Í henni kemst hann að þeirri niðurstöðu að Kína muni aldrei skipta neinu máli í alþjóðlegu efnahagslegu samhengi. Það var nú lítið mál að hrekja það með hagvaxtartölum og hlutfalli Kína í alþjóðaviðskiptum. En það var svolítið fyndið að 3 af 8 hópum birtu myndir af kínverjum sofandi í vinnunni. Þið sem lásuð færsluna mína um blundinn þeirra zzzzzzzzz

Ég er núna með þessa tómleikatilfinningu sem grípur mann oft þegar verkefni klárast. Í event bransanum er þetta kallað "post production depression" ég er semsagt með "post exam depression". Það var líka svo tómlegt í skólanum, allir að klára prófin þannig að margir eru farnir út úr borginni. En ég er nú ekki alveg búin með þessa kúrsa, á enn eftir að gera 2 einstaklingsverkefni og skrifa hluta af viðskiptaáætluninni sem ég er að gera með Ivy ofurkonu. Hún var einmitt að senda hópnum póst og reka á eftir okkur.. eigum að skila af okkur á mánudag. Svo byrja nýjir kúrsar á morgun og hinn, hlakka mikið til. Ég fer í "Game theory" og "New product development", hef heyrt að þeir séu báðir mjög góðir. Finnst alveg ótrúlegt að ég sé hálfnuð með tímann minn hér í Kína!

En það sem eftir er dags ætla ég bara að hafa það huggulegt. Er að fara að hitta vinkonu mína í franska hverfinu, ætlum í manicure og að fá okkur snarl og rauðvínsglas á eftir.. sem sagt ekta stelpukvöld!


Til hamingju með afmælið elsku Villi minn!

Elsku strákurinn minn, sakna þín rosalega mikið og finnst glatað að vera ekki með þér á afmælisdaginn. Veit að það verður æðislegt hjá þér í dag í afmæliskaffinu og í bekkjarafmælinu á morgun.. Hér er video sem ég fann og ég veit að þér finnst sennilega mjög fyndið :) Passaðu bara að ekkert af þessu gerist í afmælinu þínu!!

Kossar og knús frá Hong Feng Lu xxx

http://www.metacafe.com/w/515038/


Hættið að hrækja plííííís

Ég sver að ef ég heyri eina mannskju í viðbót ræskja sig og hrækja þá brjálast ég. Þetta er svo yfirgengilega ógeðslegt að það hálfa væri nóg. Hvað er þetta eiginlega! Ég er að reyna að læra á bókasafninu og það er bara röðin á klósettið að hrækja.. og heyrist ekki eðlilega hátt, bókstaflega bergmálar út um allt safnið! í gær var maður næstum búin að hrækja á tærnar á mér þegar ég var að labba inni á fínum kínverskum stað. Og nota bene þetta var INNI á staðnum og ég var í opnum skóm.

Það er átak í Peking að biðja kínverjana að hætta þessu út af Ólympíuleikunum, það hefur greinilega ekki náð hingað til Shanghæ. Fyrsta prófið á morgun best að halda áfram að lesa..


Myndband frá dýragarðinum í Shanghæ

Var að setja inn myndband sem sýnir frá heimsókn okkar fjölskyldunnar í dýragarðinn í Shanghæ. Það er ansi skemmtilegt.

zzzzzzzzzz........

Það er mjög gaman að sjá hversu kínverjar eru duglegir að ná að stela blundi hér og þar til þess að hvíla lúin bein. Ég sé iðulega í skólanum kínversku nemendurna sofandi í kaffiteríunni, í hægindastólunum í setustofunni eða bara fram á skólaborðin. Í gær var ég að leita að vinnustofu fyrir hópin minn um 2 leytið. Ég gekk fram á 5 nemendur sem sátu við hringborð allir sofandi :) Um daginn fórum við í banka til þess að reyna að taka út pening fyrir leigu, þurfti að borga fyrirfram þannig að ég varð að fara í útibú. Þegar við komum voru allir sofandi.. við vöktum einn gjaldkeran sem var alveg úti að aka og ennþá á milli svefns og vöku. Þetta var bank of China sem er rekin af ríkinu. Við enduðum svo á að fara í HSBC en þar voru allir vakandi og gátu aðstoðað okkur.

Við héldum fyrirlestur í gær hópurinn minn í Asian integration and business strategies. Það gekk virkilega vel þrátt fyrir krefjandi spurningar bæði frá nemendum og kennaranum. Vona að við fáum góða einkunn fyrir það. Um kvöldið fór ég svo út að borða og kíkti á næturlíf Shanghæ sem er ekki frásögum færandi nema að það var virkilega skemmtilegt kvöld. Um 3 leytið var ég samferða nokkrum krökkum úr skólanum sem vildu stoppa á Mcdonalds á leiðinni. og viti menn.. þar var annar hver maður sofandi :) Ég taldi 34 þarna inni og 20 af þeim voru sofandi! En fyrir vikið þá er þetta hin ánægjulegasta Mcdonaldsferð. Þarna var svo hljóðlátt og þægilegt andrúmsloft. Við hvísluðum til þess að vekja ekki fólkið. Við fengum nú reyndar skýringu á þessu sem var sú að þau voru að bíða eftir rútu sem fór 3 tímum síðar.

En kínverjar vakna líka mjög snemma, kl.6 á morgnanna er allt komið á fullt hérna og iðandi mannlíf. Það er ótrúlegur dugnaður í kínversku nemendunum í skólanum, þau eru með svo mikinn aga að ég dáist að þeim. Þau eru mjög góðir námsmenn og vinna sérstaklega faglega að öllum verkefnum þrátt fyrir tungumálaörðugleika sem að sjálfsögðu koma upp í hópavinnu. Það er ein kínversk stelpa sem heitir Ivy (enska nafnið hennar) sem ég held að sé yfirnáttúruleg. Hún er í 5 fögum sem eru öll mjög erfið en hún lætur það ekki aftra sig í því að vera næstum búin með viðskiptaáætlunina sem við hópurinn eigum að vinna saman. Ég hef aldrei áður lent í því í hópi að reyna að hægja á henni svo að við hin getum tekið þátt :) Um daginn var ég komin á þá niðurstöðu hún væri líklega klónuð, það væru til tvær Ivy!


Kvenfrumkvöðlar

Var að koma úr tíma í fagi sem heitir "New venture" prófessorinn minn þar er indverskur alveg frábær náungi. Hann er ótæmandi viskubrunnur um frumkvöðla og fjárfestingar. Hann var að sýna okkur dæmi um á hvaða stigum fjárfestar koma inn í fyrirtæki og hvaða kröfur þeir gera. Það sem mér fannst eftirtektarvert fyrir utan frábæran fyrirlestur var að hann nefndi nokkur dæmi um frumkvöðla sem höfðu sett af stað farsæl fyrirtæki og þau voru öll stofnuð af KONUM.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband