Leigubílar og málleysi

Það er margt sem getur tekið á taugarnar hér og varð Ikea ferðin mín í dag alveg stórkostlega gott dæmi um það. Ég á eftir að vera svo þolinmóð þegar ég kem tilbaka að vinir og vandamenn eiga ekki eftir að þekkja mig.

Ákvað semsagt að fara í Ikea til að kaupa bedda fyrir börnin mín sem eru að koma til mín á miðvikudag. Þar sem að það eru 90% líkur á því að leigubílstjórinn skilji ekki hvert ég vil fara ef ég tala bara ensku var ég búin að undirbúa vinkonu mína sem talar kínversku undir símtal frá mér þar sem að hún átti að lýsa fyrir bílstjóranum hvert ég vildi fara. Rétt áður en ég fer af stað þá er ég að reyna að fylla á inneignina á símanum mínum þar sem ég átti enga eftir. Það var náttúrulega þannig að á kortinu stóð á ensku sláðu inn xxxx númer og hlustaði síðan á leiðbeiningarnar. Nema að þegar ég hlusta á röddina þá er hún á kínversku :) þannig að það var engin leið fyrir mig að skilja neitt. Ég ákvað þá að reyna íslenska símann minn. Þá náði ég ekki í gegn, sama hvað ég reyndi oft! Að lokum ákvað ég að þetta gengi ekki lengur og fór bara út á götuna hérna fyrir framan og fann kínverskt par sem ég rétti símann og kortið og kveinkaði mér mikið. Þau voru svona líka almennileg og fylltu á inneignina fyrir mig. Úr varð að ég náði leigubíl, gat hringt í vinkonu mína, hún leiðbeint honum og mér tókst að komast í Ikea.

Að lokum þá varð þetta bara mikið skemmtilegra heldur en að fara í Hafnarfjörðinn! Það er ekki næstum svona mikið að sjá á leiðinni þangað. En þetta er samt það sem ég hef lúmsk gaman að hérna, það er allt svo mikið öðruvísi en maður er vanur og ég elska að kynnast þessarri menningu betur. En ég geri það nú sennilega ekki í IKEA þannig að nú er næsta á dagskrá að fara að ferðast! Það er svo mikið af spennandi stöðum hérna í kring og ég er mjög spennt að fara að sjá meira af Kína. Er búin að hafa lítin tíma fyrir annað en skólann og að koma mér fyrir. Hef reyndar verið dugleg að stunda jóga og búin að ná að jarðtengja mig aðeins. Ekki veitti af!

En nú er ég fyrst og fremst að bíða eftir því að Rikki og krakkarnir komi.. á miðvikudagsmorgun!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband