Leikfangasýning taka 2

Aftur á leikfangasýninguna í dag, leist betur á hana núna, var sennilega ekki nógu vel upplögð! Það var reyndar fyndin stemmning þarna, átti að loka 3 tímum eftir að ég kom en fólkið í básunum var bara farið að pakka niður og var á fullu að reyna að selja manni sýnishornin :) Ég sá fólk ganga út af sýningunni með kerrur fullar af dóti og eina konur fylla leigubíl, skottið og aftursætið af dóti. Það var mjög skemmtilegt að fylgjast með þessu. Held að ég hafi fundið nokkra framleiðendur sem hægt væri að vinna með í framtíðinni. Svo er það bara skólinn, stór kynning á morgun! Sendið mér góða strauma frá Íslandi, er að flytja kynninguna um það leiti sem þið eruð að fá ykkur morgunkornið.

Morgunmatur með aðal

Þessi dagur byrjaði of snemma eða kl.6:30, þurfti að fara í morgunmat með rektor CEIBS (skólans míns) sem bauð skiptinemunum til sín í spjall og morgunmat. Við vorum ca. 15 nemendur þarna og þetta var í alla staði mjög huggulegt. Hann sagði okkur aðeins frá því hver stefna skólans væri, hversu ólíkur skólinn væru öðrum viðskiptaháskólum í tekjuöflun og hvernig þetta flókna pólítíska umhverfi í Kína hefur áhrif á starfsemi skólans. CEIBS þýðir China European International Business School og er samstarfsverkefni Evrópusambandsins og kínverskra stjórnvalda. Einu vonbrigðin voru að það hafði spurst út að morgunmaturinn væri rosalega góður og í vestrænum stíl. Maturinn í skólanum er að mestu kínverskur, og kínverskur morgunmatur er ekkert mjög girnilegur að mati flestra skiptinemanna. Því vorum við mjög spennt en því miður þá var þetta nú meira kínverskt en vestrænt þrátt fyrir einstaka spælt egg og beikon.

Er svo búin að eyða restinni af deginum á leikfangasýningu í sýningarhöllinni hérna í Shanghai. Þetta er svona frekar lítil sýning mundi ég halda og var nú ekki mjög mikið úrval. Fór þarna aðallega til þess að skoða markaðinn og jafnvel að hitta einhverja framleiðendur. Ætla að fara aftur á morgun, verð eitthvað svo þreytt á svona sýningum, held ekki lengi út í einu. Þarf líka að læra mikið fyrir morgundaginn, erum með kynningu á verkefni á laugardag sem ég þarf að skila fyrir kl.3 á morgun.

Nú er ég komin með stefnu sem ég vil kalla "The Great Leap Forward" :) en mín persónulega GLF stefna felst í því að svara öllum athugasemdum sem berast á síðunni. Það var verið að skamma mig fyrir að svara ekki og nú er ég að bæta úr því.


Hið alþjóðlega glerþak

Áhugavert! Datt niður á þetta innskot í the Economist þegar ég var að leita að upplýsingum um Filippseyjar. Það eru hvergi í heiminum fleiri konur í stjórnunarstöðum en þar. Endilega kíkið á þetta:

http://www.economist.com/displaystory.cfm?story_id=8871935


Af tónlist og mat

Nú hrúgast upp verkefnin og prófin í skólanum. Aðeins tvær vikur eftir af þessum hluta annarinnar og þá taka við ný námskeið. Ég er að drukkna í verkefnum, bæði hóp og einstaklings. Var allan gærdaginn að leita að upplýsingum á netinu fyrir verkefni sem felst í því að opna útibú frá kínversku fyrirtæki í einhverju landi í SA Asíu. Við þurfum að greina viðskiptaumhverfið í 5 löndum og velja svo hvaða land við teljum vera vænsta kostin fyrir viðkomandi fyrirtæki. Þetta er töluvert erfiðara en að leita upplýsinga á netinu frá Íslandi því hérna eru allt of margar síður læstar vegna ritskoðunar stjórnvalda. Ég kemst ekki einu sinni inn á Wikipedia! En að sjálfsögðu eru námsmenn búnir að finna leið í kringum þetta sem ég ætla ekki að segja ykkur frá ;) en er aðeins tímafrekari. Ég er því eftirá með verkefnið og ætti frekar að vera að vinna í því en að skrifa þetta blogg.. en ég held áfram á eftir!

Var að uppgötva það að mér finnst kínversk þjóðlagatónlist dásamleg. Ég hafði ekki opnað fyrir þann möguleika að hún höfðaði til mín fyrr en ég horfði á tónleika í sjónvarpinu um daginn. Þar var verið að syngja lög, byggð á ljóðum sem samin voru á tímum Ming keisaraveldisins, þetta var hreint úr sagt ótrúlega fallegt. Nú er ég að reyna að finna hvar ég get keypt þessa tónlist. Síðan er ég byrjuð að kynnast kínverska matnum betur og farin aðeins að gera greinarmun á frá hvaða héruðum ákveðnir réttir eru og hver eru sérstaða héraðanna í matargerð. Allur kínverski maturinn sem ég hef borðað hefur verið virkilega góður þó með einni undantekningu og það eru tunglkökurnar sem voru með grænubauna sultu inní. jjakkkk.. Borðaði á mjög góðum kínverskum stað í kvöld með vinum úr skólanum. Fengum okkur peking önd sem var sælgæti og dumplinga með krabbakjöti. Fyrir utan góðan mat var útsýnið frábært, á 9.hæð alveg við Huang pu ánna þannig að við blasir "The bund" sem er eitt helsta kennileiti Shanghæ.

Jæja best að halda áfram að læra!


Hamingjute

Ætla að byrja á því að þakka ykkur fyrir að senda mér línu í athugasemdum. Það er virkilega skemmtilegt að sjá hverjir eru að skoða síðuna og endilega haldið áfram að skrifa þó að ég svari ekki alltaf :) Er afrek út af fyrir sig að ég sé yfirhöfuð að blogga miðað við hversu pennalöt ég er.

Nú eru krílin mín og Rikki farin, kvaddi þau í morgun með tárin í augunum. Þau eru í vélinni á leið til London í þessum skrifuðu orðum. Það er sérstaklega erfitt að vera í burtu frá Ragnheiði því hún skilur ekki almennilega hvers vegna ég er ekki bara hjá þeim. Hún er orðin mikil pabbastelpa og má varla sjá af honum. Það verður nokkurra vikna verkefni fyrir mig að vinna hana tilbaka þegar ég kem heim.

Það er búið að vera yndislegt að hafa þau hérna og við erum búin að gera margt skemmtilegt saman. Við fórum t.d. til borgar sem heitir Hangzou og er 2 tíma lestarferð frá Shanghæ. í Hangzou er eitt fallegasta stöðuvatn í Kína, við vorum á hóteli alveg við vatnið og ég verð að segja að þetta er fallegasta útsýni sem ég hef upplifað um ævina. Vorum aðeins óheppin með veður, seinni daginn koma fellibylur yfir landið þannig að það var brjáluð rigning og rok. Það flæddi yfir gangstéttir og upp úr holræsum þannig að við urðum að vera inni. Það var reyndar allt í lagi, höfðum það bara huggulegt inni á hóteli að lesa og borða góðan mat. Náðum að fara í ferð fyrri daginn þar sem við skoðuðum ofboðslega fallegt búddaklaustur og teþorp rétt hjá vatninu. Í teþorpinu fengum við að sjá hvernig grænt te er unnið og keyptum te beint frá bóndanum. Það er reyndar dýrasta te sem við höfum keypt, en samkvæmt bóndanum mun það bæði gera okkur hraust og hamingjusöm.. maður getur ekki sett verðmiða á það :)


Krakkar í Kína

Er búin að vera að njóta þess að eyða tíma með Rikka og börnunum, yndislegt að vera loksins búin að fá þau til mín! Þau eru bara ánægð með Shanghæ og Ragnheiður litla er eins og kvikmyndastjarna hérna. Allir stoppa hana á götu og mikið um að verið sé að taka myndir af henni. Þar sem hún er náttúrulega af hinni frægu Skarðsætt kippir hún sér ekki upp við þetta og vinkar og stillar sér upp eins og hún hafi ekki gert annað um ævina :) Kínverjar eru mjög mikið fyrir börn (kannski af því þau mega bara eiga takmarkað af þeim.. en við ræðum það síðar) og eru endalaust að spjalla og dúlla við börnin. Villi er byrjaður að æfa sig í kínversku og er orðin jafngóður og ég á einni viku. Já það er gaman að sjá að börnin séu klárari en við. Þá á sér að minnsta kosti stað einhverskonar þróun í rétta átt!

Eitt sem okkur finnst skrýtið er að flest lítil börn hérna eru með gat á buxunum í stað bleyju. Við höfum þrátt fyrir það ekki séð þau pissa eða kúka úti á götu, í búðum eða í lestinni. Þetta er mjög dularfullt og við látum ykkur vita um leið og við komumst að hinu sanna í málinu...


Kína er eins og flugvél!

Verð að deila með ykkur smá speki frá einum kennaranum mínum. Hann heitir Bala Ramasai og er frá Malasíu, stórkostlegur náungi sem kennir okkur "Asian economic integration and business strategies". Flest erum við nú hér útlendingarnir af því að okkur finnst vera gríðarlega mikil tækifæri hér. Ég er enn sannfærðari um það eftir að vera komin hingað að það sé rétt ályktað hjá okkur. Það sem að maður tekur þó eftir er að það er sennilega erfiðara en maður gerði sér grein fyrir að koma inn á þennan markað og flækjustigið er mjög hátt. Hann lýsti þessu svo vel:

"Kína er eins og flugvél! Þegar maður horfir á hana úr fjarlægð virðist hún fljúga mjög hratt en þegar þú situr í henni finnst þér hún varla hreyfast"


Leigubílar og málleysi

Það er margt sem getur tekið á taugarnar hér og varð Ikea ferðin mín í dag alveg stórkostlega gott dæmi um það. Ég á eftir að vera svo þolinmóð þegar ég kem tilbaka að vinir og vandamenn eiga ekki eftir að þekkja mig.

Ákvað semsagt að fara í Ikea til að kaupa bedda fyrir börnin mín sem eru að koma til mín á miðvikudag. Þar sem að það eru 90% líkur á því að leigubílstjórinn skilji ekki hvert ég vil fara ef ég tala bara ensku var ég búin að undirbúa vinkonu mína sem talar kínversku undir símtal frá mér þar sem að hún átti að lýsa fyrir bílstjóranum hvert ég vildi fara. Rétt áður en ég fer af stað þá er ég að reyna að fylla á inneignina á símanum mínum þar sem ég átti enga eftir. Það var náttúrulega þannig að á kortinu stóð á ensku sláðu inn xxxx númer og hlustaði síðan á leiðbeiningarnar. Nema að þegar ég hlusta á röddina þá er hún á kínversku :) þannig að það var engin leið fyrir mig að skilja neitt. Ég ákvað þá að reyna íslenska símann minn. Þá náði ég ekki í gegn, sama hvað ég reyndi oft! Að lokum ákvað ég að þetta gengi ekki lengur og fór bara út á götuna hérna fyrir framan og fann kínverskt par sem ég rétti símann og kortið og kveinkaði mér mikið. Þau voru svona líka almennileg og fylltu á inneignina fyrir mig. Úr varð að ég náði leigubíl, gat hringt í vinkonu mína, hún leiðbeint honum og mér tókst að komast í Ikea.

Að lokum þá varð þetta bara mikið skemmtilegra heldur en að fara í Hafnarfjörðinn! Það er ekki næstum svona mikið að sjá á leiðinni þangað. En þetta er samt það sem ég hef lúmsk gaman að hérna, það er allt svo mikið öðruvísi en maður er vanur og ég elska að kynnast þessarri menningu betur. En ég geri það nú sennilega ekki í IKEA þannig að nú er næsta á dagskrá að fara að ferðast! Það er svo mikið af spennandi stöðum hérna í kring og ég er mjög spennt að fara að sjá meira af Kína. Er búin að hafa lítin tíma fyrir annað en skólann og að koma mér fyrir. Hef reyndar verið dugleg að stunda jóga og búin að ná að jarðtengja mig aðeins. Ekki veitti af!

En nú er ég fyrst og fremst að bíða eftir því að Rikki og krakkarnir komi.. á miðvikudagsmorgun!


sán shí wú

Var að koma úr kínverskutíma og það er vægt til orða tekið að segja að við skiptinemarnir séum eins og hálfvitar þegar við reynum að tala kínversku. Er viss um að kennarinn fer afsíðis í hléinu og hlær sig máttlausa :)

Það er hinsvegar virkilega skemmtilegt að læra þetta mál, mjög erfitt að læra framburðin sem getur verið svo mismunandi fyrir hvern staf eftir áherslunum. Nú er ég semsagt búin að auka við þekkingu mína og get talið upp að 1000. Sem betur fer þá er ekkert ykkar hér til þess að taka mig á orðinu. Ég hef verið með kínverjum í bæði ensku- spænsku- og norskutímum á mismunandi tímabilum ævi minnar. Þá var maður nú stundum að missa þolinmæðina hvað það tók þau langan tíma að ná málinu. Við skulum segja að nú sé komið að skuldadögum, nú geta þau ranghvolft augunum yfir mér.

Kínverjar eru samt svo yfirmáta kurteisir, þó maður sé að segja eitthvað fáránlegt þá láta þeir eins og þau hafi skilið mann bara til að láta mann ekki koma illa út. En ég vorkenni öllum sem þurfa að hlusta á mig tala kínversku he he. Það góða við það er að ég get ekki orðið verri, eina leiðin er upp á við!

xxx


Engin fellibylur.. bara kakkalakki

Þetta var nú meira vesenið út af smá roki. Það kom svo engin fellibylur og allt í sóma í mínu hverfi í Shanghai. Wipha breytti um stefnu og þetta varð aldrei neitt neitt hér. Miðað við viðbúnaðinn í gær var ég nú allavega farin að búast við rafmagnsleysi.

Er hálfflökurt, var að borða með skólasystur minni og það var kakkalakki í matnum hennar. Þetta er náttúrulega viðbjóður. En verð samt að taka það fram að ég hef fengið mjög fínan mat hérna hingað til, alveg lausan við öll skordýr :) Held ég fari samt bara á Starbucks svona til að vera alveg í öruggu alþjóðavæddu umhverfi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband